19.10.2008 | 01:38
Openber skýring stjórnvalda á klúðrinu birt í sunnudagsmogganum
Svona var þetta "Stjórnvöld, fyrrverandi stjórnendur viðskiptabankana og eftirlitsstofnanir eru á einu máli um að neikvæð afstaða erlendra seðlabanka til lánveitingar til Íslands hafi orðið íslensku bönkunum að falli". Einhvernvegin kemur það manni ekki á óvart að þeir aðilar sem hér eru upp taldir telja sig ekki eiga sök á því hvernig komið er fyrir landinu. Hér fer ekki mikið fyrir iðrun eða auðmýkt.
Ég heyri það á mörgum að þeir reyna að horfa á björtu hliðarnar og telja að landið muni breytast mikið við þessar hamfarir til hins betra. Að fólk almennt muni ekki einblína eins mikið á veraldleg gæði og að mannlegri gildi fái byr undir báða vængi. Ég vona svo sannarlega að sú verði raunin. En til þess að það verði þá þarf allt að breytast í íslenskum stjórnmálum og í íslenskri fjölmiðlaumræðu og ég verð að segja eins og er að fyriragnirnar í þessari grein Agnesar í mogganum benda því miður ekki beint til þess að "menn" hafi áhuga á breytingum. Skilaboðin sem Agnes er að reyna að senda út með þessari grein eru þau að stjórnvöld beri ekki ábyrgð á því hvernig fyrir okkur sé komið heldur sé þetta vondu fólki úti í heimi að kenna sem sé illa við íslendinga. Ég get ekki kallað þessa skýringu hennar annað en vísvitandi pólitíska blekkingu.
Agnes fjallar ekkert um það hver staðan hefði verið ef við hefðum farið að ráðum fjölmargra úr háskólaumhverfinu og gengið í Evrópubandalagið og eða aðskilið fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi. Við höfum vitað það lengi að við gátum ekki bæði verið með svona stóra banka og haldið í krónuna. Þetta er búið að vera á vitorði allra þeirra sem til þekkja lengi.
Þrátt fyrir að við vonum öll að Ísland verði betra land á næstu árum þá er staðreyndin sú að efnahagshruni fylgja yfirleitt fyrst og fremst neikvæð félagsleg áhrif. Aukin tíðni skilanaða, aukin misnotkun fíkniefna og almenn vanlíðan.
Við íslendingar stöndum því á ákveðnum krossgötum í dag og hlutirnir geta farið í tvær áttir. Eins og ég sagði áðan að ef við viljum að samfélagið okkar batni við þessar hamfarir þá þarf allt í íslenskri pólitík að breytast. Við verðum þá að snúa frá stjórnmálum sem byggjast á blekkingum, lygum, spillingu og sérhagsmunum. En mér dettur ekki í hug að benda fingrinum á Davíð Oddsson, ríkisstjórnina eða alþingismenn. Ég vil benda á sjálfan mig og alla almenna kjósendur. Það erum við sem höfum látið þetta yfir okkur ganga og við berum fulla ábyrgð á því hvernig fyrir okkur er komið. Við kusum yfir okkur stjórnmálamenn sem hafa logið að okkur og blekkt okkur og við vissum það en héldum samt sem áður áfram að kjósa þá.
Það sem ísland þarf í dag eru hetjur. Hetjur eru þeir sem gera það sem er rétt fyrir samfélagið og framtíðina burt séð frá eigin hagsmunum. En við þurfum ekki að bíða eftir hetju-leiðtoga sem kemur og bjargar okkur frá þeirri stöðu sem við erum í dag. Hann eða hún mun ekki koma að sjálfu sér. Það erum við almennir kjósendur sem þurfum fyrst að gerast hetjur. Við þurfum að standa upp og verja sannleikann og almannahagsmuni. Ef við gerum það þá munu af sjálfu sér komast til forystu í okkar stjórnmálaflokkum menn og konur sem hafa hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.