11.8.2007 | 21:41
Bæjarstjórinn grípur til sinna ráða
Það hefur talsvert verið rætt hér á Akureyri um ákvörðun bæjarstjórans að banna fólki á aldrinum 18-23 ára að tjalda á tjaldstæðum bæjarins um verslunarmannahelgina. Sitt sýnist hverjum um þetta mál og langt frá því að allir bæjarbúar séu sammála um hvort að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Ég er sammála því að það eigi að breyta þessari hátíð þannig að hún höfði betur til fjölskyldufólks. Hins vegar var umrædd ákvörðun móðgun við þá sem vildu koma til bæjarins en voru ekki velkomnir. Auk þess ber allt í kringum þessa ákvörðun merki um lélega stjórnsýslu.
Það er ástæða fyrir því að í lýðræðisþjóðfélögum eru pólitískar ákvarðanir ekki teknar af einstaklingum heldur breiðum hópi fólks. Það er einnig ástæða fyrir því að þessi breiði hópur tekur ekki ákvörðun fyrr en eftir umræðu um málið þar sem að ýmis sjónarmið eru vegin og metin og staðreyndir lagðar fram. Fari menn ekki leið lýðræðisins aukast líkurnar á röngum ákvörðunum og þetta mál er gott dæmi um það.
Því fær þessi ákvörðun fullt hús eða fimm banana.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.